Charl Schwartzel frá Suður-Afríku kom mörgum á óvart í gær þegar hann fagnaði sigri á Mastersmótinu í golfi en hinn 25 ára gamli kylfingur fékk fjóra fugla í röð á síðustu fjórum holunum og tryggði sér sigur á -14 samtals.
Schwartzel sigraði á sínu fyrsta risamóti í gær en hann gerðist atvinnumaður árið 2002 og er hann þriðji yngsti kylfingurinn sem hann nær að tryggja sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni með því að komast í gegnum úrtökumótið þá rétt rúmlega 18 ára gamall.
Schwartzel átti erfitt með að lýsa því hvernig honum leið í gær þegar hann fékk græna jakkann eftir sigurinn. Fyrir 50 árum skrifaði landi hans Gary Player nýjan kafla í golfsöguna þegar hann sigraði á Mastersmótinu í fyrsta sinn á ferlinum en fram að þeim tíma höfðu kylfingar frá Bandaríkjunum einokað titilinn. Schwartzel er aðeins þriðji kylfingurinn frá Suður-Afríku sem sigrar á Mastersmótinu en Trevor Immelmann sigraði árið 2008.
„Þessi dagur var ótrúlegur, áhorfendur voru frábærir og það voru fagnaðarlæti út um allt á vellinum og andrúmsloftið var magnað," sagði Schwartzel. „Ég fann að ég þurfti að gera eitthvað þegar Adam Scott var byrjaður að fá fugla – og ég sló vel með járnunum inn á flöt og ég púttaði vel," sagði Schwartzel sem fékk fjóra fugla í röð á síðustu fjórum holunum.
Það var sérstök tilfinning að ganga upp 18 brautina, ég var aðeins með eitt högg í forskot, og ég reyndi að halda ró minni. Eitt högg er ekki mikið forskot og ég held ég hafi aldrei talað eins mikið við æðri máttarvöld – en ég talaði stanslaust við sjálfan mig á lokaholunum," sagði Schwartzel.
Hann sigraði á sínu fyrsta atvinnumóti árið 2005 á Evrópumótaröðinni þegar hann lék best allra á Dunhill meistaramótinu. Hann komst í hóp 100 efstu á heimslistanum árið 2006 og hann sigraði í annað sinn á Evrópumótaröðinni árið 2007 á opna spænska meistaramótinu. Árið 2008 sigraði hann á opna Madrídarmótinu en hann náði ekki að sigra á atvinnumóti árið 2009.
Í lok ársins 2010 vann hann tvö mót í röð á Evrópumótaröðinni sem fram fóru í Suður-Afríku, og hann varði titilinn á opna Jóhannesaborgarmótinu árið 2011. Hann fékk keppnisrétt á PGA mótaröðinni s.l. haust og er sigur hans á Mastersmótinu því fyrsti sigur hans í Bandaríkjunum frá upphafi.

