Landsliðsmaðurinn Oddur Gretarsson, leikmaður Akureyrar, heldur til Þýskalands í fyrramálið þar sem hann verður til reynslu hjá þýska úrvalsdeildarliðinu Wetzlar fram á föstudag.
Hjá Wetzlar mun Oddur hitta fyrir félaga sinn í landsliðinu, Kára Kristján Kristjánsson, sem hefur spilað mjög vel með Wetzlar í vetur.
Samkvæmt heimildum Vísis hafa forráðamenn félagsins fylgst með Oddi síðan í febrúar.
Fleiri lið hafa áhuga á hornamanninum efnilega sem mun vafalítið kíkja í heimsókn til fleiri liða á næstu misserum og afar ólíklegt að hann verði áfram í herbúðum Akureyrar á næstu leiktíð.

