Goðsögn hrundið Steinunn Stefánsdóttir skrifar 25. febrúar 2011 09:39 Goðsögnin um hreina landið í norðri með heilnæma loftið, tæra vatnið og sjálfbæru orkuna hefur verið afar lífseig hér á landi. Smám saman er þó að koma í ljós að Íslendingar hafa flotið sofandi að feigðarósi þegar kemur að mengunarmálum; litið undan og viljað trúa því að það sem ekki er vitað um, mælt og skráð, það sé ekki til. Frá upphafi þessa árs hefur birst hér í Fréttablaðinu röð frétta um díoxínmengun af völdum sorpbrennsla á nokkrum stöðum á landinu. Slíkar brennslur hafa sent eiturefni út í andrúmsloft friðsælla og fagurra þorpa þar sem fólk taldi að það andaði eingöngu að sér hreinu íslensku sjávar- og sveitalofti, dýrin bitu hreint og ómengað gras og afurðirnar sem af þeim kæmu væru þar af leiðandi bæði hreinar og heilnæmar. Þeir sem ábyrgð báru á þessari eiturefnaútspýtingu litu markvisst undan, vanræktu að mæla mengun og að upplýsa um niðurstöður þegar hún hafði verið mæld. Á einum stað þarf bóndi að fella bústofn sinn eftir að í ljós kom að díoxínmagn í skepnunum var slíkt að afurðirnar teljast ekki hæfar til manneldis. Ekki er vitað hvort eða hvenær jörð hans verður byggileg að nýju. Á öðrum stað var sorpið brennt á lóð grunnskólans. Slíkt var andvaraleysið. Annað dæmi er svifryksmengun í þéttbýli. Dofri Hermannsson rifjaði á bloggi sínu í vikunni upp að áður en farið var að mæla svifryk í Reykjavík var hún hvorki meira né minna en hreinasta höfuðborg í heimi. Þegar farið var að mæla svifrykið kom hins vegar í ljós að oft á ári fer mengun yfir hættumörk. Þannig var goðsögninni hrundið með því einu að afla upplýsinga. Í vikunni birtust svo hér í blaðinu fréttir af öðru mengunarmáli. Hér á landi hefur til þessa ríkt algert andvaraleysi gagnvart PCB-eiturefnum sem finna má í byggingarefni sem var notað um áratugaskeið eftir miðja síðustu öld. Vitað er að PCB hefur heilsuspillandi áhrif bæði á íbúa þeirra húsa þar sem eiturefnið er og ekki síður þá byggingaverkamenn sem vinna við viðhald eða niðurrif húsa með PCB. Stefán Gíslason umhverfisfræðingur hefur sýnt fram á að líklegt sé að tugi tonna af PCB sé að finna í húsum sem byggð eru á árabilinu 1956 til 1980. Þó hefur aldrei verið sóst eftir mælingum á PCB-mengun í byggingarefni hjá rannsóknarstofu hér á landi sem getur mælt magn efnisins. Ekki er vitað til að sýnd sé sérstök varúð þegar verið er að vinna í húsum sem byggð eru á tímabilinu eða við niðurrif þeirra. Félagsbústaðir eru þó undantekning frá þessu en þar á bæ er gengið út frá því að hús sem byggð eru á því tímabili sem um ræðir séu menguð og byggingaverkamenn á þeirra vegum viðhafa varúðarráðstafanir á borð við þær sem tíðkast í öðrum löndum þegar verið er að vinna í húsum sem vitað er að séu PCB-menguð. Á hreinasta landi í heimi er þannig ótrúlega víða pottur brotinn. Góðu fréttirnar eru þó að bæði ráðherra umhverfismála og þær stofnanir sem með mengunarmál vinna hafa brugðist við upplýsingum um díoxínmengun af festu og ábyrgð. Meðan svo er má binda vonir við að unnið verði að úrbótum í mengunarmálum í stað þess að byggja hugmyndir um mengun, eða öllu heldur mengunarleysi, á úreltum goðsögnum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Steinunn Stefánsdóttir Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun
Goðsögnin um hreina landið í norðri með heilnæma loftið, tæra vatnið og sjálfbæru orkuna hefur verið afar lífseig hér á landi. Smám saman er þó að koma í ljós að Íslendingar hafa flotið sofandi að feigðarósi þegar kemur að mengunarmálum; litið undan og viljað trúa því að það sem ekki er vitað um, mælt og skráð, það sé ekki til. Frá upphafi þessa árs hefur birst hér í Fréttablaðinu röð frétta um díoxínmengun af völdum sorpbrennsla á nokkrum stöðum á landinu. Slíkar brennslur hafa sent eiturefni út í andrúmsloft friðsælla og fagurra þorpa þar sem fólk taldi að það andaði eingöngu að sér hreinu íslensku sjávar- og sveitalofti, dýrin bitu hreint og ómengað gras og afurðirnar sem af þeim kæmu væru þar af leiðandi bæði hreinar og heilnæmar. Þeir sem ábyrgð báru á þessari eiturefnaútspýtingu litu markvisst undan, vanræktu að mæla mengun og að upplýsa um niðurstöður þegar hún hafði verið mæld. Á einum stað þarf bóndi að fella bústofn sinn eftir að í ljós kom að díoxínmagn í skepnunum var slíkt að afurðirnar teljast ekki hæfar til manneldis. Ekki er vitað hvort eða hvenær jörð hans verður byggileg að nýju. Á öðrum stað var sorpið brennt á lóð grunnskólans. Slíkt var andvaraleysið. Annað dæmi er svifryksmengun í þéttbýli. Dofri Hermannsson rifjaði á bloggi sínu í vikunni upp að áður en farið var að mæla svifryk í Reykjavík var hún hvorki meira né minna en hreinasta höfuðborg í heimi. Þegar farið var að mæla svifrykið kom hins vegar í ljós að oft á ári fer mengun yfir hættumörk. Þannig var goðsögninni hrundið með því einu að afla upplýsinga. Í vikunni birtust svo hér í blaðinu fréttir af öðru mengunarmáli. Hér á landi hefur til þessa ríkt algert andvaraleysi gagnvart PCB-eiturefnum sem finna má í byggingarefni sem var notað um áratugaskeið eftir miðja síðustu öld. Vitað er að PCB hefur heilsuspillandi áhrif bæði á íbúa þeirra húsa þar sem eiturefnið er og ekki síður þá byggingaverkamenn sem vinna við viðhald eða niðurrif húsa með PCB. Stefán Gíslason umhverfisfræðingur hefur sýnt fram á að líklegt sé að tugi tonna af PCB sé að finna í húsum sem byggð eru á árabilinu 1956 til 1980. Þó hefur aldrei verið sóst eftir mælingum á PCB-mengun í byggingarefni hjá rannsóknarstofu hér á landi sem getur mælt magn efnisins. Ekki er vitað til að sýnd sé sérstök varúð þegar verið er að vinna í húsum sem byggð eru á tímabilinu eða við niðurrif þeirra. Félagsbústaðir eru þó undantekning frá þessu en þar á bæ er gengið út frá því að hús sem byggð eru á því tímabili sem um ræðir séu menguð og byggingaverkamenn á þeirra vegum viðhafa varúðarráðstafanir á borð við þær sem tíðkast í öðrum löndum þegar verið er að vinna í húsum sem vitað er að séu PCB-menguð. Á hreinasta landi í heimi er þannig ótrúlega víða pottur brotinn. Góðu fréttirnar eru þó að bæði ráðherra umhverfismála og þær stofnanir sem með mengunarmál vinna hafa brugðist við upplýsingum um díoxínmengun af festu og ábyrgð. Meðan svo er má binda vonir við að unnið verði að úrbótum í mengunarmálum í stað þess að byggja hugmyndir um mengun, eða öllu heldur mengunarleysi, á úreltum goðsögnum.