Körfubolti

Helgi Jónas: Gleymdum varnarleiknum inn í klefa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Helgi Jónas Guðfinsson, þjálfari Grindvíkinga, segir að sínir menn hafi ekki gert neitt að því sem rætt var um í hálfleik er liðið tapaði fyrir KR í úrslitum Powerade-bikarkeppni karla í dag.

Leikurinn var afar jafn í fyrri hálfleik en KR-ingar voru fljótir að taka frumkvæðið í þeim síðari og keyra yfir Grindvíkinga.

„Það sem gerðist er að varnarleikurinn fór út um dyrnar. Við gleymdum honum inn í klefa og allri þeirri baráttu sem var til staðar í fyrri hálfleik,“ sagði hann í samtali við Vísi en viðtalið við hann má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

„Við töluðum um að gera ákveðna hluti í hálfleik og svo stíga menn á gólfið í þeim síðari og gerðu ekkert af því.“

KR-ingar voru svo fljótir að gera út um leikinn og settu niður alls átta þriggja stiga skot í seinni hálfleik.

„Þegar menn eru komnir fimmtán stigum yfir verða þessi skot pressulaus og því mun auðveldara að fá þau niður en þegar leikurinn er jafn.“

„En KR-ingar spiluðu frábærlega í kvöld og eiga hrós skilið,“ bætti Helgi Jónas við.

Grindvíkingar byrjuðu mjög vel í deildinni í haust en hafa verið að gefa eftir á síðustu vikum.

„Það var mikill getumunur á liðunum í dag og hugarfarið skiptir líka máli. Ég hélt að menn myndu nota þennan leik til að snúa við blaðinu og menn gerðu það í 20 mínútur. Við héldum að það væri nóg.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×