Lausn Icesave deilunnar mun ekki leiða til afnáms gjaldeyrishaftanna en gæti raunar lengt þau enn frekar.
Fjallað er um málið í Markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa. Þar segir að vonir standa til að verði samkomulagið samþykkt af stjórnvöldum muni það leiða til hærra lánshæfismats ríkissjóðs og lægra skuldatryggingaálags. Í framhaldinu ætti að aukast aðgengi innlendra aðila að erlendu lánsfé.
Varðandi afnám gjaldeyrishaftanna þá mun lausn Icesave ekki hafa áhrif á þau í bráð því Seðlabankinn hefur gefið út að ekki verði stigið næsta skref fyrr en í fyrsta lagi í mars á næsta ári. Hinsvegar virðist vera að enn sé veruleg gengisáhætta fyrir ríkisstjóð vegna Icesave.
Ástæða þess er að skuldbindingar innstæðusjóðsins eru fastar í krónum en samkomulagið við Breta og Hollendinga er í erlendri mynt. Því kann svo að fara að afnám haftanna geti dregist enn frekar, telji Seðlabankinn að afnámið leiði til veikingar krónunnar.