Þetta kemur fram í viðtali CNBC sjónvarpsstöðvarinnar við Soros sem telur nánast óumflýjanlegt að kreppan muni skella á Evrópu að nýju í kjölfar mikilla sparnaðaraðgerða ríkisstjórna álfunnar. Aðgerða sem eiga að minnka gífurlegan fjárlagahalla hjá flestum ríkjunum sem samhliða glíma við miklar opinberar skuldir.
„Þýskaland mun lykta eins og rósir á meðan að Evrópa mun sogast niður í djúpið," segir Soros. „Stöðnun mun ríkja í fjölda ára og hugsanlega verður ástandið enn verra."
Soros segir að sparnaðaraðgerðirnar muni hafa þessar afleiðingar því að þær koma á sama tíma og eftirspurn er veik og bankakerfið brothætt. „Þetta er því áhættusöm leið," segir Soros.
Fram kemur að Soros telur að regluskortur í kringum evruna og þá einkum hvernig ríki geti yfirgefið myntbandalagið feli í sér dauðann. „Innbyggðir veikleikar í evrukerfinu eru að koma upp úr kafinu í dag," segir Soros.
Eitt land, Þýskaland, sker sig úr hópi Evrópuríkja, hvað framtíðarsýn Soros varðar. Hann segir að Þýskaland muni standa sig í kreppunni því landið njóti góðs af veikingu evrunnar. Sú veiking styrki útflutningsdrifið hagkerfi Þýskalands.