Í frétt um málið í Jyllands Posten segir að alls voru 514 nauðungaruppboð haldin í mars og er það aukning um 99% frá marsmánuði í fyrra. Að sögn Hagstofu Danmerkur hefur fjöldi nauðungaruppboða í landinu ekki verið meiri síðan árið 1995.
Höfuðástæður fyrir nauðungaruppboðunum eru lækkandi fasteignaverð samfara auknu atvinnuleysi og að fram til ársins 2008 hækkuðu vextir stöðugt á breytilegum lánum.
Sten Bocian aðalhagfræðingur Danske Bank segir að fyrrgreind blanda hafi leitt til þess að sífellt fleiri íbúðaeigendur hafi lent í vandræðum með skuldbindingar sínar. Samtímis hafi markaðsverð eigna þeirra lækkað svo mikið að viðkomandi geti ekki losað sig úr skuldunum með því að selja eignirnar.
Fram kemur í máli Bocian að Danske Bank telur að þessi staða muni fara versnandi og að nauðungaruppboðum muni fara fjölgandi á næstu ársfjórðungum.
Í frétt Jyllands Posten segir að af einstökum landshlutum í Danmörku sé staðan verst á Sjálandi en þar hefur fjöldi nauðungaruppboða þrefaldast á einu ári.