Fótbolti

Reyndu að trufla svefn leikmanna Inter

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Spurning hversu mikið Mourinho svaf í nótt?
Spurning hversu mikið Mourinho svaf í nótt?

Stuðningsmenn Barcelona byrjuðu að leggja sitt af mörkum fyrir leikinn í kvöld strax í nótt er 50 þeirra mættu fyrir utan hótel Inter.

Þangað mættu stuðningsmennirnir með trommur, lúðra, flugelda sem og raddböndin sem voru óspart notuð til þess að skapa sem mestan hávaða.

Tilgangurinn var að trufla svefn leikmanna Inter svo þeir yrðu ekki upp á sitt besta í leiknum á eftir.

Stuðningsmennirnir voru fyrir utan hótelið í þrjá klukkutíma eða til 3 um nóttina. Þá fjarlægðu öryggisverðir fólkið en lögreglan gerði ekkert í málinu.

Eftir því sem næst verður komist gekk þetta atriði ekki upp og leikmenn Inter sváfu að sögn eins og ungabörn.

Ítalska liðið hefur mátt finna fyrir því síðan það kom til Spánar. Fjöldi stuðningsmanna beið þeirra á flugvellinum þar sem leikmenn fengu það óþvegið í návígi.

Einhverjir stuðningsmenn Barcelona réðust síðan á bíl Jose Mourinho, þjálfara Inter, en lögreglan náði að stöðva þá áður en bílnum var rústað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×