Skoðun

Alþingi fær málskotsrétt til forseta

Svavar Gestsson skrifar
Forseti Íslands lýsti því yfir á dögunum að hann íhugaði að setja Icesave-málið aftur í þjóðaratkvæði. Hann dró ummæli sín ekki til baka í yfirlýsingu frá forsetaskrifstofunni sama dag eins og hann hefði getað gert en vildi greinilega ekki gera.

Þar með hefur hann í raun afnumið þingræðið í þessu máli - og hann getur það í fleiri málum. Nú er vitað að niðurskurður í heilbrigðismálum úti á landi er afar óvinsælt mál þar. Verður fjárlagafrumvarpið sent til þjóðaratkvæðis?

Rökrétt afleiðing af þessari afstöðu forsetans væri sú að framvegis byrjaði Alþingi á því að spyrja forsetann áður en mál væri til meðferðar á Alþingi hvort líklegt væri að forsetinn myndi fallast á málið eða ekki. Alþingi hefur málskotsrétt til forsetans. Hvernig ætlar Alþingi að höggva á þennan hnút?

Forsetinn getur tekið sér þetta vald gagnvart Alþingi af því að Alþingi er svo óvinsælt - meðal annars fyrir málflutning þingmannanna sjálfra - að enginn mun taka upp hanskann fyrir Alþingi. Ólafur mun því halda áfram; hann verður eins og Pútín og Medvedjeff í einum og sama manninum.

Forsetinn getur líka komist upp með þetta vegna þess að það er ekki bannað í stjórnarskránni, engin skýr lög hafa verið sett um forsetaembættið. Þau þarf að setja og það er vel hægt að setja lög um forsetaembættið á grundvelli stjórnarskrárinnar eins og hún er.

Þetta er ekki skrifað hér í hálfkæringi og enn síður í gríni. Hér er komið að kjarna lýðræðisins, þingræðinu: Viljum við þingræði eða viljum við eitthvað allt annað?

Sú stjórnskipun sem Ólafur Ragnar hefur skapað hefur ekkert nafn því hvergi á jörðinni er þingið svo lítilsiglt að það þurfi að biðja um leyfi hjá þjóðhöfðingjanum til þess að fá að samþykkja mál. Unir Alþingi þessu eða er það kannski orðið alger drusla?

Ólafur Ragnar hefur setið í 16 ár, fjögur kjörtímabil. Hann gengst upp í því að setja söguleg met. Hann mun bjóða sig fram til fimmta kjörtímabilsins og hann hefur fundið pottþétta aðferð til að tryggja sér kosningu: Hann setur erfið mál í þjóðaratkvæði.












Skoðun

Sjá meira


×