Stjarnan var afar nærri því að ná óvæntu stigi gegn Fram í N1-deild kvenna í dag en mátti sætta sig við afar naumt tap.
Stjarnan spilaði glæsilega í fyrri hálfleik og var með sjö marka forystu í hálfleik, 21-14.
En Framarar vöknuðu til lífsins strax í upphafi síðari hálfleiks og skoruðu fyrstu sex mörk hálfleiksins.
Stjarnan var þó með undirtökin lengst af í síðari hálfleik þar til að Karen Knútsdóttir jafnaði metin þegar fimm mínútur voru til leiksloka í stöðunni 30-30.
Það var svo Stella Sigurðardóttir sem skoraði sigurmark Fram á lokamínútu leiksins. Stjarnan átti möguleika á að jafna metin í síðustu sókn leiksins en allt kom fyrir ekki.
Íris Björk Símonardóttir átti mjög góðan leik í liði Fram, sérstaklega í síðari hálfleik er Fram náði að minnka forystu Stjörnunnar.
Stella skoraði níu mörk fyrir Fram og Þorgerður Anna Atladóttir, sem var að spila sinn fyrsta leik með Stjörnunni á tímabilinu, var einnig atkvæðamikil með tíu mörk.
Karen skoraði átta mörk fyrir Fram og Guðrún Þóra Hálfánsdóttir fimm. Jóna Margrét Ragnarsdóttir og Sólveig Lára Kjærnested skoruðu sex mörk hvor fyrir Stjörnuna.