Cesc Fabregas, fyrirliði Arsenal, æfði ekki með liði sínu í dag, daginn fyrir fyrri leikinn á móti Barcelona í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Það er mjög tvísýnt hvort að Spánverjinn snjalli geti verið með á Emirates-vellinum á morgun.
Cesc Fabregas meiddist á fæti í jafnteflinu á móti Birmingham um helgina en faðir hans tjáði fjölmiðlum að hann hafi bara fengið högg og meiðslin væru ekki alvarleg.
„Hann finnur mun minna fyrir þessu núna og það lítur út fyrir að þetta hafi bara verið slæmt högg. Ég held að Cesc spili þennan leik, hann verður kannski ekki hundrað prósent heill en hann gerir allt til þess að ná þessum leik," sagði pabbi Cesc Fabregas við The Sun.
