Viðskipti erlent

Engisprettuplága ógnar hveitiuppskeru Ástralíu

Það sem talið er að verði stærsta engisprettuplága í Ástralíu undanfarin 25 ár ógnar nú hveitiuppskeru landsins en Ástralir eru fjórðu stærstu útflytjendur hveitis í heiminum. Talið er að skaðinn í Victoríuríki einu saman geti numið 2 milljörðum Ástralíudollara eða um 220 milljörðum kr.

Fjallað er um málið á Bloomberg fréttaveitunni. Þar segir að vætusamt veður að undanförnu hafi haft þau áhrif að engisprettur hafi verpt mun fleiri eggjum en venjulega í helstu kornræktarhéruðum Ástralíu. Eggin muni klekjast út á tímabilinu ágúst til október í ríkjunum Victoríu, Nýja Suður Wales og Suður Ástralíu.

Yfirvöld í þessum ríkjum ætla að verja tugum milljóna dollara hvert til að reyna að draga úr plágunni sem framundan er. Engisprettur hafa lengi verið versta skordýraplága landsins. Formaður bændasamtakanna í Victoríu segir að þar sem engispretturnar hafi þegar verpt eggjum sínum muni varnir þeirra gegn plágunni einkum beinast að því að hefta útbreiðslu hennar í september.

Elstu heimildir um engisprettuplágur í Ástralíu ná aftur til ársins 1844. Þéttir sveipir af engisprettum, það er fleiri en 50 dýr á fermetrann geta étið sig í gegnum 20 tonn af korni á einum degi. Þá eru dæmi um að sveipirnir geta ferðast um hundruð kílómetra á einni nóttu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×