Íslenski boltinn

Jóhann Berg: Besta tilfinning sem ég hef upplifað

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Edinborg skrifar

„Þetta er sú allra besta tilfinning sem ég hef upplifað á minni ævi,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson, eftir sigurinn góða á Skotum í kvöld.

Ísland vann leikinn, 2-1, og rimmuna samanlagt 4-2. Þar með tryggði liðið sér sæti í úrslitakeppni EM í Danmörku næsta sumar.

En leikurinn í kvöld var erfiður og Skotar voru með undirtökin í leiknum lengst af.

„Við vissum að þeir myndu byrja að pressa mikið á okkur sem og þeir gerðu. Þetta var líka erfiður völlur og frekar harður. Við spiluðum ekki okkar besta leik en samt unnum við - það er jákvætt.“

„Við höfum sýnt að við getum spilað hörkuvel. Við rassskelltum Þjóðverjana sem er risaþjóð. Við höfum líka alltaf komið til baka í okkar leikjum. Í dag náðu þeir að jafna með ótrúlegu marki en þá komust við bara aftur yfir.“

Jóhann Berg hefur verið fastamaður í A-landsliði karla sem mætir Portúgal á morgun. Hann sér ekki eftir þeim leik nú.

„Nei, það er alveg ljóst. Þessu verður fagnað vel og innilega í kvöld.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×