Gunnar Rúnar Sigurþórsson hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðahald í fjórar vikur vegna gruns um að hafa átt aðild að andláti Hannesar Þórs Helgasonar, sem var myrtur á heimili sínu 15. ágúst síðastliðinn.
Úrskurðurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness. Þegar er búið að áfrýja úrskurðinum til Hæstaréttar Íslands.
Gunnar Rúnar er 23 ára gamall. Hann komst í fjölmiðla á síðasta ári fyrir einlæga ástarjátningu sína þegar hann birti myndband á Youtube. Þar ávarpaði hann unnustu Hannesar sem er á svipuðum aldri og Gunnar. Hann lýsti því yfir að hann elskaði hana og bað hana um að endurgjalda ást sína. Það gerði hún hinsvegar ekki.
Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni sem barst fjölmiðlum í dag þá er rökstuddur grunur talinn vera fyrir hendi um að Gunnar eigi aðild að andláti Hannesar. Í kjölfar handtökunnar var gerð ítarleg húsleit á heimili Gunnars og hald lagt á muni sem þar var að finna og tengjast hugsanlega rannsókninni.
Lögreglan getur ekki greint nánar frá þessum nýju gögnum að öðru leyti en því að þau eru árangur vettvangsvinnu tæknideildar lögreglunnar.
Gunnar var handtekinn stuttu eftir að Hannes var myrtur. Þá var honum haldið í sólarhring. Þá var Gunnar nafngreindur í nokkrum fjölmiðlum. Verjandi Gunnars, Guðrún Sesselja Arnardóttir, gagnrýndi nafn- og myndbirtinguna harðlega. Ekki hefur náðst í hana síðan Gunnar var handtekinn.
Tveir aðrir menn voru handteknir vegna málsins og haldið yfir nótt. Í hvorugt skiptið krafðist lögreglan gæsluvarðhalds yfir mönnunum.
Unnusta Hannesar vildi ekki tjá sig um handtöku Gunnars Rúnars þegar eftir því var leitað.