Hnefaleikamaðurinn málglaði Floyd Mayweather kveðst í viðtali við Sky Sports fréttastofuna aðeins vera að einbeita sér að bardaga sínum gegn Shane Mosley og sé hættur að hugsa um Manny Pacquiao í bili.
„Ég einbeiti mér bara að Shane Mosley og get ekki beðið eftir því að komast aftur í hringinn. Ég veit ekki hvernig Mosley mætir í hringinn en ég get staðfest það að ég mun mæta tilbúinn og í toppformi," segir hinn ósigraði Mayweather og vildi ekkert tjá sig um mögulegan bardaga við WBO-veltivigtarmeistarann Pacquiao eftir bardagann við Mosley sem fram fer 1. maí í Las Vegas.
Mayweather var aftur á móti með skilaboð til Bretans Ricky Hatton sem Bandaríkjamaðurinn lagið 2007 og hefur reyndar einnig tapað á móti Pacquiao eftir það.
„Hatton ætti bara að leggja hanskana á hilluna. Hann er harðjaxl en hann er búinn að ganga í gegnum stóra bardaga, bæði gegn mér og Manny og hefur ekki komið vel út úr þeim. Líkaminn finnur fyrir þessu og því ætti hann bara að hætta," segir Mayweather.