Ætli Íslendingar að halda í krónuna er ólíklegt að gjaldeyrishöft verði afnumin á næstu fimm til tíu árum. Í skugga þeirra verður að endurbyggja íslenska myntsvæðið með lágu raungengi og lítilli einkaneyslu, að sögn Ásgeirs Jónssonar, forstöðumanns greiningar Arion Banka.
Ásgeir var með erindi á morgunverðarfundi Arion Banka í morgun um gjaldeyrishöft og framtíð krónunnar.
Hann sagði inngöngu landsins inn í myntbandalag Evrópu nauðsynlegan hluta af aðildarviðræðum stjórnvalda við Evrópusambandið. Í kjölfarið taki við eitthvað form fastgengisstefnu við evruna. Ólíklegt sé hins vegar að krónan verði sett á flot.
„Það er vafamál hvort að krónan muni fljóta aftur á næstu 5-10 árum, haldi hún áfram að vera til, og einhver tegund af höftum mun verða nauðsynlegt böl á íslenskum gjaldeyrismarkaði," sagði hann.