Erlent

Mótframlög koma frá Íslandi

Evrópusambandið gerir kröfu um mótframlög að hluta.
Evrópusambandið gerir kröfu um mótframlög að hluta. Nordicphotos/AFP

Styrkir frá ESB jafna ekki út allan kostnað Íslendinga við aðildarviðræður. Óljóst er hve stór hluti framlaga úr IPA-sjóðum Evrópusambandsins kemur til lækkunar á beinum kostnaði Íslands vegna aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

Utanríkisráðuneytið gerir ráð fyrir því að heildarkostnaður tengdur aðildarviðræðum geti numið um einum milljarði króna, að meðtöldum þýðingarkostnaði upp á ríflega hálfan milljarð.

Þennan kostnað greiða Íslendingar væntanlega að hluta upp á eigin spýtur, en eins og fram kom í Fréttablaðinu á þriðjudag standa Íslendingum til boða meira en fjórir milljarðar króna frá Evrópusambandinu næstu þrjú árin til margvíslegra verkefna sem tengjast aðildarviðræðum og undirbúningi aðildar, sem geta þá komið að hluta til lækkunar þessum kostnaði.

Reglur Evrópusambandsins um IPA-styrki gera auk þess ráð fyrir því að Íslendingar greiði mótframlag með sumum þeirra verkefna sem styrkt eru. Þannig eru styrkir sem snúa að fjárfestingum bundnir að minnsta kosti 15 prósenta mótframlagi, en beinir styrkir kalla á að minnsta kosti tíu prósenta mótframlag. Önnur verkefni lúta ekki reglum um lágmarksmótframlag.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×