Karlmaður á þrítugsaldri er í haldi lögreglu vegna rannsóknarinnar á morðinu á Hannesi Helgasyni.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var húsleit gerð á heimili mannsins í Hafnarfirði í gærkvöld, en hann er einn þriggja sem lögreglan hefur haft í haldi yfir nótt vegna rannsóknarinnar.
Vefmiðillinn Pressan hefur eftir sjónarvottum að starfsmenn tæknideildar lögreglunnar hafi verið með í för þegar húsleitin var gerð um ellefuleitið í gærkvöldi.
Maðurinn er Íslendingur á þrítugsaldri og tengist unnustu Hannesar heitins. Lögreglan mun á allra næstu klukkustundum taka ákvörðun um hvort krafist verði gæsluvarðhalds yfir manninum.