Skoðun

Alls konar áætlunin

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og skrifa
Það er vont þegar stefnu vantar í stefnumótandi plögg. Fjárhagsáætlun borgarinnar er dæmi um slíkt plagg. Áætlunin gefur borgarbúum engin skýr skilaboð um stefnu meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar næstu árin. Skilaboðin eru óútfærð, óskýr og hreint út sagt út og suður.+

Langtímastefnan kemur hvergi fram. Enginn veit, hvorki kjörnir fulltrúar né starfsmenn, hvaða rekstrarþætti á að verja umfram aðra. Ekkert er fjallað um atvinnu eða atvinnuleysi. Engar útfærslur sjást varðandi framkvæmdir sem Dagur B. Eggertsson þó gagnrýndi hvað harðast að vantaði í síðustu fjárhagsáætlun. Dagur talaði þá um "framkvæmdastopp" þó framkvæmt væri fyrir 10 milljarða. "Hagvöxtur í Reykjavík" hefur jafnvel ekki verið skilgreindur en Dagur fjallaði ótæpilega um það óskýra fyrirbæri í kosningabaráttunni.

Ekki er metið hvað hækkaðir skattar og gjöld á fjölskyldur komi til með að kosta samtals þótt nánast allt sé hækkað sem hægt er að hækka. Engin skýr lína kemur fram um hvort eigi að verja störf eða ekki og starfsmenn sitja uppi með ógrynni af óútfærðum hagræðingartillögum sem samtals nema u.þ.b. einum milljarði króna á ársgrundvelli. Það eina sem er útfært í þaula er hvernig seilast eigi dýpra í tóma vasa borgarbúa.

Meirihlutinn setur ekki fram leiðbeinandi línur í fjárhagsáætlanagerðinni um hvernig skuli haga samrekstri í þjónustu eins og t.d. skóla. Ekki er heldur búið að ákveða hvernig á að hagræða í sérkennslu, forföllum eða langtímaveikindum í leik- og grunnskólum. Ekkert er enn ákveðið um hvernig eigi að skipuleggja hagræðingu í ráðhúsinu.

Í stuttu máli er fjárhagsáætlun meirihlutans fullkomlega ókláruð. Rúsínan í pylsuendanum er síðan að hið svokallaða gat sem Besti flokkurinn og Samfylking ætla sér að loka hefur stækkað á ótrúlegan hátt með útgjaldaliðnum "ófyrirséð fé" sem stækkar nú í tæpan milljarð. "Ófyrirséð fé" er óbundinn liður í áætluninni og er til að mæta ýmsum uppákomum, dekurverkefnum eða verkefnum sem meirihlutinn vill takast á við á nýju ári. Sannarlega alls konar.










Skoðun

Sjá meira


×