Akureyringar létu ekki óvenjulegan undirbúning fyrir leik sinn á móti HK í N1- deild karla í kvöld hafa mikinn áhrif á sig. Akureyri vann gríðarlegan mikilvægan útisigur á HK í Digranesi í baráttunni um sæti inn í úrslitakeppnina en þeir fengu þó ekki keppnisbúningana fyrr en rétt fyrir leik.
„Það var einhver vafasamur leigubílstjóri í Reykjavík sem rúntaði með búninganna um bæinn í einhver klukkutíma. Hann rataði ekki upp í Digranes og við fengum búningana korteri fyrir leik. Ég vil þakka HK og HSÍ fyrir að seinka leiknum um fimm mínútur því við kunnum ekki við að fara inn á gólfið á brókinni," sagði Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Akureyrar um það sem gerðist.
„Menn voru orðnir órólegir og HK-ingar voru byrjaðir að leita af varabúningnum sínum til þess að lána okkur. Ég held að leigubílstjórar í Reykjavík ættu að fá sér GPS-tæki," sagði Rúnar í léttum tón en hann og aðrir Akureyringar hefði örugglega ekki verið eins sáttir ef þessi mikilvægi leikur hefði tapast.
Rúntaði með búningana um bæinn og rataði ekki upp í Digranes
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
