Körfubolti

Sævaldur: Erum að byggja upp nýtt lið

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Mynd/Stefán
„Breiðablik teflir fram mjög breyttu liði frá síðustu leiktíð og við gáfum yngri leikmönnunum tækifæri á að spreyta sig í dag. Við erum að byggja upp nýtt lið," segir Sævaldur Bjarnason, þjálfari Breiðabliks, sem beið lægri hlut fyrir Tindastól, 49-78 í 32-liða úrslitum Powerade-bikarins.

Sigurinn var aldrei í hættu hjá Tindastól sem höfðu tögl og hagldir frá upphafi. Ungu strákarnir fengu tækifærið hjá heimamönnum í Blikum en Sævaldur er ekki sáttur með hversu stór sigur gestanna varð.

„Þetta var fullstór sigur og mínir menn hefðu mátt leggja meira á sig í sókninni. Tindastóll hefur átt í vandræðum í vetur en það er ekki af ástæðulausu að þeir leika í efstu deild."

Breiðablik féll úr Iceland Express deildinni síðasta vor en talið var að liðið myndi berjast um sæti í efstu deild að nýju. Liðið hefur ekki farið jafn vel af stað eins og vonir stóðu um og telur Sævaldur að það taki tíma að búa til gott lið.

„Við ætlum að byggja upp nýtt lið á ungu strákunum okkar. Markmiðið hjá okkur er einfaldlega að bæta okkur og við erum með marga hæfileikaríka stráka en þurfum að leika meira sem lið. Við erum kannski á styttri veg komnir en margir andstæðingar okkar og þurfum að leggja meira á okkur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×