Skoðun

Meirihluti nemenda verðskuldar meiri athygli

Ég þakka svör Ólafs H. Helgasonar og Guðmundar J. Guðmundssonar við grein minni frá 30. júlí s.l. Ekki get ég annað en brugðist við þó að það hafi í för með sér að enn víkur sögunni að því sem ég álít minniháttar vanda í skólakerfinu, þ.e. innritunarreglum í framhaldsskóla. Ég ítreka að tíma okkar sem höfum áhuga á skólamálum væri mun betur varið í að ræða alvarlegri mál, svo sem þá staðreynd að mun færri nemendur ljúka framhaldsskólanámi hér en eðlilegt getur talist. Sú staðreynd ein og sér ætti að duga til að sannfæra menn um að eitthvað er bogið við þá skipan skólamála sem við höfum vanist og aðkallandi að leita annarra leiða til að tryggja fleirum menntun.

Ég varpaði fram þeirri hugmynd (sem hvorki er sérlega frumleg né ný af nálinni) að okkur væri hollt að huga að fjölmenningu og á þar við að meiri blöndun nemenda sem búa yfir mörgum og ólíkum styrkleikum væri hópnum í heild til hagsbóta. Í blaðagrein gefst ekki tækifæri til að vísa í heimildir og ég hef heldur ekki fleiri orð um þá skoðun Guðmundar að markviss fræðsla og áróður gefist betur þegar unnið er gegn fordómum heldur en að t.d. fólk af ólíkum uppruna vinni saman hlið við hlið - þar er ég einfaldlega hjartanlega ósammála. En fyrst að ég fullyrði að engu ungmenni sem er að ljúka grunnskólanámi sé vísað í lélegan skóla er rétt að staldra þar við.

Hvernig er hægt að mæla gæði skóla? Ólafur telur að fjöldi umsókna sextán ára fólks um skólavist sé gildur mælikvarði. Með sama hætti mætti þá fullyrða að Michael Jackson sé besti tónlistarmaður mannkynssögunnar, Avatar og Titanic bestu kvikmyndirnar og Tilvitnanir í Maó formann engu ómerkara rit en Biblían og Kóraninn. Öllum má ljóst vera að við þetta er ýmislegt að athuga þó að margir hafi viljað kaupa vöruna. Þegar kemur að skólum verða málin nokkuð flókin. Nauðsynlegt hlýtur að vera að skoða hvað nemendur koma með inn í framhaldsskólann í upphafi og bera það saman við það sem þeir koma með út. Nemandi með 8,5 eða hærra í meðaleinkunn eftir grunnskóla virðist óneitanlega bókhneigður og ekki er ólíklegt að hann stefni á háskólanám. Engum framhaldsskóla getur veist erfitt að styðja hann á leiðinni þangað. Þá er eftir meirihluti íslenskra nemenda sem verðskulda meiri athygli en þeir almennt fá í umræðunni. Í mörgum skólum er unnið merkilegt starf við að laða fram styrkleika þeirra og gera þeim kleift að standa jafnfætis hinum í námi eða starfi þegar fram líða stundir. Þegar vel tekst til verða gífurlegar framfarir hjá mörgum nemendum á framhaldsskólaárunum og verður spennandi að sjá niðurstöður vandaðrar rannsóknar á því hvernig nemendur koma undirbúnir í háskóla úr hinum ýmsu skólum.

En „menntun" er víðfeðmt hugtak sem á ekki einungis við um undirbúning langskólanáms og því vafasamt að fullyrða að ein gerð skóla sé betri en önnur. Ætli reyndin sé ekki sú að flestir hafi eitthvað sér til ágætis og ef val nemenda um skólavist eftir grunnskóla væri upplýstara og byggði frekar á staðreyndum yrði dreifingin jafnari. Aldrei munu finnast innritunarreglur sem leiða til þess að allir nemendur komist inn í þann skóla sem þeir kjósa allra helst en í því felst ekki mikill harmleikur. Að fá skólavist er út af fyrir sig dýrmætt nú um stundir eins og þeir mörg hundruð eldri en átján ára sem hafnað var í ár vita mætavel. 45% úr hverfinu er trúlega ágætur millivegur, svo framarlega sem skólarnir bregðast ekki þeirri skyldu sinni að koma nemendum sínum til mennta með ráðum og dáð þó að með hverfishópnum slæðist inn einhverjir sem skólanum hugnast ekki við fyrstu sýn. Þegar upp er staðið er það allra ávinningur að saman í bekk séu bæði þeir sem hyggja á langskólanám og aðrir og er litrófið svo margslungið að fjölbreytnin er næg þó að bílgreinafólkið stormi í Borgarholt öðrum skólum fremur og verðandi kjötiðnaðarmenn í Kópavog.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×