Stjörnukonur eru komnar í undanúrslit Eimskipsbikars kvenna í handbolta eftir 34-32 sigur á Haukum í tvíframlengdum leik í Mýrinni í kvöld. Stjarnan verður því pottinum þegar dregið verður á morgun ásamt Val, Fram og FH sem komust einnig áfram í bikarnum í kvöld.
Haukaliðið byrjaði betur og var í forustu í upphafi leiks en Stjörnuliðið var fljótlega komið með frumkvæðið ekki síst fyrir flottan leik hjá Þorgerði Önnu Atladóttur. Stjarnan virtist í framhaldinu ætla að ná góðum tökum á leiknum en Haukakonur komu til baka í lok hálfleiksins.
Stjarnan var einu marki yfir í hálfleik, 15-14, en Haukakonur skoruðu fjögur fyrstu mörk seinni hálfleiks og komust í 15-18. Eftir það héldu Hafnarfjarðarstúlkur forustunni fram í lok leiksins.
Stjörnukonur skoruðu fjögur mörk í röð og komust í 26-25 en Ramune Pekearskyte tryggði Haukum framlengingu með því að skora úr vítakasti þegar leiktíminn var liðinni.
Haukar voru áfram með frumkvæðið í fyrstu framlengingunni en Aðalheiður Hreinsdóttir tryggði liðinu aðra framlengingu með því að jafna í 28-28.
Stjarnann var síðan sterkari í annarri framlengingunni og bikarmeistararnir tryggðu sér tveggja marka sigur, 34-32.
Alina Tamasan skoraði 14 mörk fyrir Stjörnuna og Florentina Stanciu varði 22 skot. Ramune Pekarskyte skoraði 7 mörk fyrir Hauka.
Úrslit úr leikjum kvöldsins:
Stjarnan-Haukar 34-32 (28-28, 26-26)
Mörk Stjörnunnar: Alina Daniela Tamasan 14, Þorgerður Anna Atladóttir 6, Þórhildur Gunnarsdóttir 5, Jóna Sigríður Halldórsdóttir 4, Elísabet Gunnarsdóttir 3, Harpa Sif Eyjólfsdóttir 1, Aðalheiður Hreinsdóttir 1.
Mörk Hauka: Ramune Pekarskyte 9, Erna Þráinsdóttir 5, Hanna G. Stefánsdóttir 5, Ester Óskarsdóttir 5, Þórunn Friðriksdóttir 4, Nína B. Arnfinnsdóttir 4
FH-KA/Þór 33-25
Víkingur2-Valur 8-41
Grótta-Fram 14-39