Skoðun

Líknarfélög töpuðu ekki á Icesave

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Þess misskilnings hefur gætt í umræðunni um Icesave að lögaðilar s.s. sveitarfélög, líknarfélög og aðrir aðilar hafi tapað gríðarlegum fjárhæðum á Icesave netreikningum Landsbankans. Staðreyndin er sú að einvörðungu einstaklingar gátu lagt fé inn á reikningana, en fagfjárfestar þ.m.t félagasamtök og sveitarfélög áttu viðskipti á heildsölumarkaði með innlán og þá oft fyrir milligöngu þriðja aðila. Lögaðilar áttu aldrei aðgang að netreikningum Landsbankans enda voru þeir sérhannaðir fyrir einstaklinga á smásölumarkaði.

Ofangreindir aðilar töpuðu fé á viðskiptum sínum við Landsbanki London Branch, Heritable Bank og Landsbanki Amsterdam Branch, en það tap hefur ekkert með innlánsreikninga Icesave að gera.

Vandi okkar er sá að þingmenn Hollands og Bretlands virðast ekki gera greinarmun á þessu tvennu. Það er hins vegar afar mikilvægt fyrir málstað Íslendinga að þetta atriði komi skýrt fram þar sem að margir þingmenn bæði Breta og Hollendinga veigra sér við að taka upp málstað Íslendinga vegna þess að þeir standa í þeirri trú að sveitarfélög og líknarfélög hafi tapað á Icesave, en svo er ekki.

Þeirri staðreynd hefur heldur ekki verið haldið á lofti að þessir þrír bankar voru ólíkir að því leiti að annars vegar var um að ræða útibú Landsbankans; Landsbanki London Branch og Amsterdam Branch sem voru á ábyrgð íslenska fjármálaeftirlitsins og hins vegar dótturfélag Landsbankans; Heritable bank þ.e. breskan banka á ábyrg breska fjármálaeftirlitsins. Lögaðilar eiga kröfur á þessa þrjá banka Landsbankans og þrátt fyrir að þeir hafi allir verið í eigu íslenskra aðila þá er ábyrgðin ekki eingöngu Íslendinga.

Málstaður Íslands og orðstír er undir og því mikilvægt að farið sé með rétt mál og allar upplýsingar sem því tengjast séu uppi á borðum áður en gengið verður aftur til samninga við Breta og Hollendinga. Málið er nógu erfitt þótt að við látum ekki misskilning sem þennan veikja stöðu okkar enn frekar.

Höfundur er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.








Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×