Skoðun

Leikjastefna Reykjavíkur

Af hverju eru ekki fleiri ungbarnarólur á leikvöllum? Getur borgin ekki sett niður brettagarða fyrir unglinga? Hvar eru trimmtækin við hlaupaleiðir? Þurfa að vera eins leiktæki á öllum leikvöllum? Hvernig eiga eldri borgarar að geta sótt þjónustu gangandi ef þeir geta ekki hvílt sig á bekk á leiðinni? Mega hundarnir hvergi vera? Fjölmargir íbúar spyrja þessara réttmætu spurninga og borgarfulltrúar hafa til margra ára ekki getað svarað öðruvísi en að ganga í einstök mál. Úr verður óskipulögð borg opinna svæða sem tekur tillit til margra að litlu leyti, sumra að engu leyti, og á mismunandi hátt í ólíkum hverfum.

Tillaga um gerð leikjastefnu Reykjavíkur var samþykkt í umhverfis- og samgönguráði í júní 2009. Tillagan gerði ráð fyrir að unnið væri að breskri og hollenskri fyrirmynd. Samkvæmt henni er núverandi notkun svæða, gönguleiða og leiktækja í hverju hverfi skoðuð. Íbúafundir eru haldnir um hvað vantar og sérstök skoðun fer fram á þörfum hópa eins og til dæmis eldri borgara, unglinga og hundaeigenda. Nú þegar liggur fyrir fyrsta úttekt á Vesturbænum. Hún leiddi m.a. í ljós nauðsyn þess að tryggja öruggar gönguleiðir að vinsælum svæðum. Næsta verkefni er samtal við íbúa um þarfir ólíkra hópa og skráning á því hvernig íbúar nota eða nota ekki núverandi svæði.

Þegar illa stendur á í fjármálum eru líkur á að dýrmæt svæði borgarinnar drabbist niður. Viðhald er skorið við nögl og endurnýjun leiktækja í lágmarki. Þá er mikilvægara en áður að hafa skýra stefnu um hvernig eigi að verja því fé sem til er. Borgarstjórn Reykjavíkur og hverfisráðin þurfa að setja kraft í að vinna þessa leikjastefnu áfram. Forgangsröðun fjárfestinga munu þá grundvallast á vel útfærðri leikjastefnu. Slíkt getur til dæmis leitt til þess að íbúar sameinist um að efla verulega eitt opið leiksvæði á kostnað nokkurra lítilla svæða. Þannig vinnst fjármagn til fjárfestinga og viðhalds og betri sátt um leiksvæði borgarinnar.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×