Lögmaður ungs manns, sem var handtekinn vegna manndrápsmáls í Hafnarfirði, fordæmir vinnubrögð ákveðinna fjölmiðla vegna nafn- og myndbirtingar af skjólstæðingi sínum.
„Það ber að fordæma þau forkastanlegu vinnubrögð sem ákveðnir fjölmiðlar hafa viðhaft í þessu máli og þá sérstaklega ótímabæra nafn- og myndbirtingu af skjólstæðingi mínum. Gera verður þá kröfu til fjölmiðla að þeir hafi í heiðri þá meginreglu réttarfarslaga að maður sé saklaus uns sekt telst sönnuð og á það sérstaklega við þegar hvorki hefur verið farið fram á gæsluvarðhald yfir viðkomandi, né heldur gefin út ákæra," segir Guðrún Sesselja Arnardóttir, verjandi mannsins sem var handtekinn seint í gærkvöldi, vegna gruns um aðild að manndrápsmálinu í Hafnarfirði þar sem Hannes Þór Helgason var myrtur.
Maðurinn, sem er á þrítugsaldri, var nafngreindur á nokkrum fjölmiðlum og myndbirtur að auki. Honum var hinsvegar sleppt eftir hádegi í dag þar sem í ljós kom að ekki þótti ástæða til þess að hneppa manninn í gæsluvarðhald.
Af sex stærstu vef-fréttamiðlum landsins birtu þrír þeirra nafn og mynd af manninum. Það gerðu Vísir.is, mbl.is og RUV.is hinsvegar ekki.
Hægt er að lesa tilkynningu í heild sinni frá lögmanni mannsins hér fyrir neðan.