Fótbolti

Gylfi með tvö mörk og stoðsendingu í fyrsta byrjunarliðsleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar öðru marka sinna.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar öðru marka sinna. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði tvö mörk og lagði upp það þriðja í dag í fyrsta leik sínum í byrjunarliði Hoffenheim í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Hoffenheim vann þá 4-0 sigur á Hannover.

Gylfi hafði komið inn á sem varamaður í fyrstu fimm deildarleikjum sínum með Hoffenheim og hafði tvívegis skorað í þeim leikjum. Í kvöld fékk hann hinsvegar tækifærið í byrjunarliðinu og nýtti það frábærlega.

Gylfi skoraði fyrsta mark leiksins á lokamínútu fyrri hálfleiks með þrumuskoti með vinstri fæti af um sextán metra færi.

Gylfi bætti við öðru marki úr vítaspyrnu á 48. mínútu og lagði síðan upp skallamark fyrir Demba Ba aðeins þremur mínútum síðar. Gylfi tók þá aukaspyrnu frá hægri og sendi hann beint á kollinn á Ba.

Gylfi var þarna búinn að koma að þremur mörkum á aðeins sex mínútna kafla og það munaði litlu að hann legði upp annað skallamark á 56. mínútu.

Peniel Mlapa innsiglaði síðan sigur Hoffenheim með því að skora fjórða markið á 71. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×