Viðskipti erlent

Breskir þingmenn vilja ekki endurtekningu á Icesave

Breskir þingmenn vilja að fjármálaeftirlitinu þar í landi verði færð aukin völd til að fylgjast með fyrirtækjum sem ráðleggja sveitarfélögum að ávaxta sparifé. Þingmennirnir vilja ekki að Icesave endurtaki sig, en sveitarfélög, opinberir aðilar og góðgerðarsamtökum töpuðu nær 200 milljörðum kr. á reikningunum.

 

 

Breskir þingmenn vilja að fjármálaeftirlitinu í Bretlandi verði færð aukin völd til að fylgjast með fyrirtækjum sem ráðleggja sveitarfélögum, góðgerðarsamtökum og fleiri stofnunum um hvernig hvernig best sé að ávaxta sparifé, að því er breska dagblaðið Independent greinir frá. Umræðan kemur í kjölfar þess að sveitarfélög og góðgerðarsamtök töpuðu hundruð milljóna punda við fall Landsbankans.

 

Hingað til hafa sveitarfélög og góðgerðarsamtök verið talin falla undir flokk upplýstra neytenda sem ekki þurfi sérstaka vernd í bankaheiminum líkt og almennir borgarar.

 

Í skýrslu sem verður birt í dag á vegum breskrar þingmannanefndar segir hins vegar að Icesave-reikningar Landsbankans hafi afhjúpað augljósa galla í kerfinu. Þess vegna þurfi FSA, fjármáleftirlitið þar í landi, að fylgjast grannt með þeirri fjármálaráðgjöf sem sveitarfélög og góðgerðarsamtök þiggja.

 

Breska þingmannanefndin vekur athygli á því að ráðgjafar hafi vísað til þess í auglýsingum að þeir hefðu heimild fjármálaeftirlitsins og þetta hafi verið til þess fallið að skapa traust hjá neytandanum. Raunin hafi hins vegar verið sú að ekkert eftirlit hafi verið með mörgum ráðgjafafyrirtækjanna og mörg þeirra hafi mælt með hávaxtareikningum eins og Icesave-reikningum Landsbankans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×