Skoðun

Sáttmáli um fullveldi og sjálfstæði

Anna Kolbrún Árnadóttir skrifar
Fólkið í landinu vill að stjórnarskráin sé sáttmáli sem tryggir fullveldi og sjálfstæði Íslendinga og sé skrifuð fyrir fólkið í landinu en samkvæmt lögum um stjórnlagaþing nr. 90/2010 skal stjórnlagaþing sérstaklega taka m.a. til umfjöllunar ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan.

Ég hef áður viðrað þá skoðun mína um kosningar og kjördæmaskipan og hef þá skoðun að tryggja þurfi landsbyggðinni áfram rödd í stjórnsýslu landsins sem og á alþingi, þó stuðlað verði að persónukjöri og jafnvel þó landið verði eitt kjördæmi.

Fram kemur á vef Samgöngu og sveitarstjórnarráðuneytis að nauðsynlegt er talið að efla sveitarstjórnarstigið. Fleiri verkefni sem á síðustu árum hafa verið færð sveitarfélögum og frekari verkefnaflutningur krefst stærri og öflugri rekstrareininga. Ríkisstjórnin hefur markað þá stefnu að færa skuli ábyrgð á lögbundinni þjónustu við aldraða og fatlaða frá ríki til sveitarfélaga.

Ég held að þetta skipti gríðarlegu máli þegar ég held því fram að tryggja eigi landshlutum og þar með sveitarstjórnum á hverjum stað rödd á alþingi. Í þessu sambandi má benda á þá ótvíræðu lagaskyldu sem lögð er á ráðherra sveitastjórnarmála en í 88. grein sveitarstjórnarlaganna segir: „Ráðuneytið skal vinna að stækkun sveitarfélaga með samruna fámennra sveitarfélaga í stærri og öflugri heildir. Skal ráðuneytið vinna að þessu í samráði við einstök sveitarfélög, Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga."

Nú er það þannig að verði landið eitt kjördæmi er hætt við því að hagsmunaaðilar muni reyna að hafa áhrif á einstaka þingmenn og eins og þróunin hefur verið á undanförnum misserum er ekki víst að sveitarfélög landsins hafi bolmagn til þess að beita sér með þeim hætti sem aðrir hagsmunaaðilar óhjákvæmilega geta.

Ég vil því stíga varlega til jarðar hvað varðar að landið verði eitt kjördæmi - landshlutarnir/sveitarfélögin þar undir á landinu öllu verða að geta átt sér málsvara til þess að geta mætt skyldum sínum til framtíðar.

 




Skoðun

Sjá meira


×