Viðskipti erlent

Kreppan herjar á Dani, skuldir og gjaldþrot aukast

Danmörk verður hart úti í fjármálakreppu heimsins. Skuldir hins opinbera aukast hröðum skrefum sem og gjaldþrotum hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Þá hefur fjöldi nauðungaruppboða sjaldan verið meiri.

 

Í umfjöllun danskra fjölmiðla um ástandið kemur fram að ljósi punkturinn í þessari þróun er að aðeins dró úr gjaldþrotum og nauðungaruppboðum milli mánaðanna ágúst og september.

 

Alls urðu 458 fyrirtæki gjaldþrota í september sem er 4% minni fjöldi en í ágúst. Í þessum gjaldþrotum misstu 1.259 manns vinnuna. Þá voru 395 nauðungaruppboð haldin í september sem er 6% minni fjöldi en í ágúst, samkvæmt upplýsingum frá dönsku hagstofunni.

 

Gjaldþrotin í ár hafa aukið verulega á greiðslubyrði Ábyrgðarsjóðs launa (LG) í Danmörku en þar á bæ reikna menn með að þurfa að greiða út tvöfalt hærri upphæð en í fyrra.

 

Allt árið í fyrra leituðu 19.000 einstaklingar til LG vegna gjaldþrota fyrirtækja og námu greiðslur sjóðsins um 500 milljónum danskra kr. Fram til september í ár var þessi fjöldi kominn í 24.000 einstaklinga og greiðslur ársins voru komnar í 800 milljónir danskra kr.

 

Ekki blæs byrlegar í fjármálum hins opinbera í Danmörku. Fjárlagahallinn mun nema 5 milljörðum danskra kr. í ár eða um 120 milljörðum kr. og reiknað er með að hallinn verði álíka á næsta ári. Þar með ná heildarskuldir ríkissjóðs upp í 90 milljarða danskra kr. eða tæplega 2.200 milljörðum kr. Þetta samsvarar um 5% af landsframleiðslu landsins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×