Körfubolti

Ármann krækti í Davis áður en hann fór af landi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Davis sést hér í leik með Blikum á móti Snæfelli.
John Davis sést hér í leik með Blikum á móti Snæfelli. Mynd/Anton
1. deildarlið Ármanns hefur gert samning við Bandaríkjamanninn John Davis um að hann spili með liðinu í vetur. Davis byrjaði tímabilið í herbúðum Breiðabliks í Iceland Express deildinni en var látinn fara á dögunum þar sem Blikar töldu sig þurfa að vera með tvo erlenda leikmenn í stað eins áður.

John Davis er 190 sem framherji en hann var með 20,3 stig og 9 fráköst að meðaltali í fyrstu sex leikjum Blika en Kópavogsliðið vann þá aðeins einn þeirra. Davis átti sinn besta leik í eina sigrunum sem var á móti FSu en hann var þá með 29 stig og 16 fráköst á aðeins 24 mínútum.

„John hefur æft með Ármanni síðustu viku og er í fínu formi og er tilbúinn fyrir leik kvöldsins en kl. 19.15 mætast Hrunamenn og Ármann á Flúðum. Aðspurður segist John lítast vel á liðið og hlakkar til að geta lagt sitt af mörkum fyrir Ármann," segir í Frétt á heimasíðu Ármenninga.

Ármann er í 6. sæti 1. deildarinnar með 2 sigra og 3 töp í fyrstu fimm leikjunum. Liðið vann öruggan 91-55 sigur á Þór Akureyri í síðasta leik og er til alls líklegt með Davis innanborðs.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×