LdB FC Malmö, eitt stærsta félagið í Svíþjóð, hefur sýnt Blikanum Söru Björk Gunnarsdóttur áhuga.
Dóra Stefánsdóttir hefur leikið með félaginu undanfarin ár og þá er Þóra B. Helgadóttir nýgengin í raðir félagsins frá Kolbotn í Noregi.
Sjálf hafði Sara heyrt af áhuga Malmö en hún stefnir engu að síður að því að spila hér á landi á næstu leiktíð.
„Ég vil klára skólann í vor og svo gæti eitthvað gerst eftir að tímabilinu lýkur um haustið. Ég vonast þó eftir að komast út til reynslu hjá einhverju félagi nú í vetur til að undirbúa mig fyrir næsta haust.“ sagði Sara við Fréttablaðið.
Malmö varð í þriðja sæti sænsku úrvalsdeildarinnar í haust, aðeins fjórum stigum á eftir meisturunum í Linköping.