Í takt við fjölgun þjóðarinnar hafa aldrei jafn margir verið á kjörskrárstofni fyrir kosningar og nú. Alls eru 227.896 á kjörskrárstofni en sú tala segir ekki til um endanlegan fjölda kosningabærra manna. Tekið verður tillit til látinna og þeirra sem fengið hafa nýtt ríkisfang að kosningunum afstöðnum.
Í kosningunum 2007 voru 221.330 á kjörskrá. Neyttu þá 83,6 prósent atkvæðisréttar síns. Í kosningunum 2003 voru 211.304 á kjörskrá og kosningaþátttakan 87,7%.
9.398 fá nú að kjósa í fyrsta sinn en kosningabærir eru þeir sem náð hafa átján ára aldri á kjördegi.
Kjósendur með lögheimili erlendis eru 9.924.
Af einstökum kjördæmum eru flestir kjósendur í Suðvesturkjördæmi en fæstir í Norðvesturkjördæmi. Er munurinn næstum 40 þúsund manns en aðeins er þremur þingmönnum fleira í Suðvesturkjördæmi.
Af einstökum sveitarfélögum eru fæstir á kjörskrá í Árneshreppi, 42. Hefur fjölgað um einn frá kosningunum 2007. 44 eru á kjörskrá í Skorradalshreppi og 50 í Helgafellssveit. Flestir eru á kjörskrá í Reykjavík, alls 87.532. Sem kunnugt er skiptist höfuðborgin í tvö kjördæmi. - bþs