Fótbolti

Vandræði ítölsku liðanna eru fjárhagsleg

Milan hefur verið fastagestur í úrslitaleikjum Meistaradeildarinnar undanfarin ár, en nú hefur haldur hallað undan fæti hjá stórveldinu
Milan hefur verið fastagestur í úrslitaleikjum Meistaradeildarinnar undanfarin ár, en nú hefur haldur hallað undan fæti hjá stórveldinu Nordic Photos/Getty Images

Adriano Galliani, varaforseti AC Milan, segir að heimskreppan sé að skella hvað þyngst á ítölskum knattspyrnufélögum.

Mikið hefur verið gert úr stöðubaráttu enskra og ítalskra knattspyrnufélaga í Evrópukeppninni að undanförnu og því er ekki að neita að ensku félögin hafa haft vinninginn síðustu ár.

AC Milan hefur verið flaggskip ítalskrar knattspyrnu í Evrópukeppnunum undanfarin ár og hefur þrisvar komist í úrslitaleikinn á síðustu sex árum. Liðið komst ekki einu sinni í Meistaradeildina í ár og Galliani rekur það til efnahagsástandsins.

"Kreppan er ástæða þess að ítölsku félögin eru fallin úr leik í Meistaradeildinni. Ensku félögin eiga sína eigin leikvanga sem eru nær alltaf fullir og því þéna þau miklu meira en við. Fyrir tíu árum þénuðu ítölsku félögin miklu meira en þau spænsku og ensku og voru alráð í Evrópukeppnum. Það yrði stórslys ef við snúum þessari þróun ekki við og missum sæti okkar sem þriðja sterkasta deildin í Evrópu," sagði Galliani í útvarpsviðtali á Ítalíu.

Hann var ekki hissa á því að Inter félli úr leik fyrir Manchester United í Meistaradeildinni og minnti um leið á sína menn.

"Mig langar að minna fólk á að síðast þegar United tapaði í Meistaradeildinni var í undanúrslitunum árið 2007 þegar liðið tapaði fyrir Milan. Síðan þá hefur liðið ekki tapað í 21 leik og síðasti leikur sem liðið tapaði heima þar á undan var gegn Milan árið 2005," sagði Galliani.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×