Elin Nordegren, eiginkona Tiger Woods, er sögð í fjölmiðlum vestanhafs í dag ætla að skilja við kylfinginn vegna framhjáhalda hans.
Fram kemur í People Magazine að Elin muni vera harðákveðinn að skilja við Woods en til þessa hafa um tólf konur komið fram og fullyrt að þær hafi átt í sambandi við Tiger á undanförnum árum.
Fleiri fjölmiðlar hafa fullyrt að parið búi ekki lengur saman og að Nordegren hafi þegar ráðið sér skilnaðarlögfræðing.
Búist er við að Nordegren muni tilkynna ákvörðun sína um skilnaðinn eftir jól. Þau giftust árið 2004 og eiga saman tvö ung börn.
Fréttirnar af þessu birtast sama dag og Woods var valinn íþróttamaður áratugarins af fréttastofu Associated Press.