Annar leikur KR og Keflavíkur í undanúrslitum Iceland Express deildar kvenna í körfubolta fer fram í DHL-Höllinni í kvöld. KR vann fyrsta leikinn með minnsta mun í Keflavík, 78-77, en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst í lokaúrslitin.
KR-ingar hafa sett inn á heimasíðu sína myndband af æsispennandi lokamínútum síðasta leiks. Það var Helga Einarsdóttir sem tryggði KR-liðinu sigurinn með körfu tæpum sex sekúndum fyrir leikslok.
Kesha Watson fékk tækifæri til að tryggja Keflavík sigurinn í sínum fyrsta leik eftir að hún kom til baka en skot hennar geigaði.
KR-konur unnu þarna sinn fyrsta leik í Keflavík síðan 2005 en liðið var búið að tapa tíu leikjum í röð í Toyota-höllinni þar af tveimur þeirra með aðeins einu stigi.
Myndbandið sem nær yfir síðustu þrjár mínútur leiksins í Keflavík á miðvikudagskvöldið má sjá hér.