Meistarakeppni HSÍ fer fram í Laugardalshöllinni í kvöld og þessu sinni fara bæði karla og kvennaleikurinn fram á sama stað og á sama kvöldi. Leikur Stjörnunnar og FH í kvennaflokki hefst klukkan 18.30 og leikur Hauka og Vals í karlaflokki hefst síðan strax á eftir eða klukkan 20.30.
Stjarnan er Íslands- og bikarmeistari í kvennaflokki en FH fékk sæti í leiknum þar sem liðið komst í bikarúrslitaleikinn á síðasta tímabili. Stjarnan vann bikarúrslitaleik liðanna 27-22 í Höllinni en bæði lið hafa breyst nokkuð síðan í þeim leik.
Haukar eru Íslandsmeistarar í karlaflokki og Valsmenn eru bikarmeistarar. Liðin eru bæði líkleg til afreka í vetur og það stefnir í jafnan og spennandi leik ef marka má leik þeirra í Hafnarfjarðarmótinu um helgina þar sem þau gerðu 23-23 jafntefli.
Valsmenn unnu að lokum Hafnarfjarðarmótið með minnsta mögulega mun,. Bæði lið fengu 5 stig og voru með sama markahlutfall en Valsmenn höfðu skorað einu marki meira og voru því krýndir meistarar. Haukar ætla væntanlega að hefna fyrir það í kvöld.