Þegar álverðið fór í 2.010 dollara á tonnið í lok síðasta mánaðar fjallaði hagfræðideild Landsbankans um verðið í Hagsjá sinni. Þar sagði að álframleiðendur hafi dregið úr birgðastöðu samhliða fremur óhagstæðri verðþróun samkvæmt upplýsingum Alþjóða álstofnunarinnar, International Aluminium Institute.
Gögn hennar sýna að frá því verð tók að þokast upp á við á ný samhliða viðsnúningi í efnahagskerfi heimsins í mars síðastliðnum hefur dregið úr álbirgðum á heimsvísu. Í júlí var lækkun birgðastöðu rúm 21% frá fyrra ári en í september nam lækkunin 24%
Verðmæti útflutts áls fyrstu átta mánuði ársins var 34% af heildarverðmæti íslensks útflutnings samkvæmt sundurliðun Hagstofunnar. Að magni til jókst álútflutningur um 12,6% frá fyrstu átta mánuðum ársins 2008 en sökum slakrar verðþróunar var verðmæti álútflutnings 3% rýrara á þessu ári en árinu áður.