Atvinnukylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson lék lokahringinn á opna portúgalska mótinu á Evrópumótaröðinni á 72 höggum eða einu höggi yfir pari. Hann endaði mótið í 72. sæti og lék holurnar 72 á átta höggum yfir pari.
Það voru aðeins tveir kylfingar neðar en Birgir Leifur af þeim sem komust í gegnum niðurskurðinn en hann náði ekki að fylgja eftir frábærum fyrsta hring á mótinu.
Birgir Leifur fékk fjóra skolla í dag sem var mikil framför frá degi tvö og þrjú þar sem hann varð að sætta sig við að fá samanlagt þrettán skolla. Birgir Leifur náði 3 fuglum og fór 11 af 18 holum á pari á lokahringnum í dag.
Birgir Leifur var annars að hitta kúluna vel í dag því fyrsta högg hans á hverri holu var að meðaltali upp á 297,5 jarda sem var það langhæsta hjá honum á öllu mótinu.