Körfubolti

Valsmenn komnir í úrslit þriðja árið í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robert Hodgson leiddi sína menn til sigurs á KFÍ í kvöld.
Robert Hodgson leiddi sína menn til sigurs á KFÍ í kvöld. Mynd/Arnþór

Það verða Valur og Fjölnir sem spila til úrslita í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta eftir 18 stiga sigur Vals á KFÍ, 102-84 í oddaleik í Vodafone-höllinni að Hlíðarenda í kvöld.

Úrslitaeinvígið hefst á föstudaginn og það lið sem fyrr vinnur tvo leiki tryggir sér sæti í Iceland Express deild karla á næsta tímabili.

Valsmenn byrjuðu leikinn af miklum krafti, voru 26-17 yfir eftir fyrsta leikhlutann og 17 stigum yfir í hálfleik, 47-30. Valsmenn tóku upp þráðinn eftir hlé og voru með leikinn í öruggum höndum allan tímann.

Valsmenn eru þar með komnir þriðja árið í röð og í fjórða sinn á fimm árum í lokaúrslit 1. deildar karla. Þeir hafa hinsvegar ekki náð að klára úrslitaeinvígið ennþá en stefna væntanlega að breyta því í ár.

Robert Hodgson, spilandi þjálfari Vals, var stigahæstur með 21 stig og Gylfi Geirsson skoraði 15 stig, tók 10 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Þá skoraði Þorgrímur Björnsson 12 stig og tók 8 fráköst.

Hjá KFÍ Craig Schoen skoraði 27 stig og Pance Ilievski var með 15 stig .




Fleiri fréttir

Sjá meira


×