Viðskipti erlent

Warren Buffett veðjar á matvöru og olíu

Almennir fjárfestar halda niðri í sér andanum þegar fréttist af því að ofurfjárfestirinn Warren Buffett hreyfi sig á markaðinum. Nú hefur Buffett, eða félag hans Berkshire Hathaway, ákveðið að veðja á matvöru og olíu með kaupum í Nestlé og Exxon.

Warren Buffett hefur keypt 3,4 milljónir hluta í matvælasamsteypunni Nestlé og 1,3 milljónir hluta í olíurisanum Exxon. Buffett notaði einnig tækifærið til að tvöfalda eign sína í stórmarkaðakeðjunni Walmart og á þar nú 18 milljónir hluta.

Í frétt um málið á börsen.dk er haft eftir David Katz greinenda hjá Matrix Asset Advisor í New York að þegar Buffett kaupir fleiri hluti í Walmart gefi það í skyn að samkeppnisstaða keðjunnar muni batna til lengri tíma litið. Það passi vel við fjárfestingarstefnu Buffett að fjárfesta í hratt vaxandi fyrirtæki án þess að eyða auðæfum til þess. Walmart jók tekjur sínar um 3,2% á þriðja ársfjórðungi.

Þá má nefna að stærsta einstaka fjárfesting í eignasafni Buffett er 10,7 milljarða dollara hlutur í Coca-Cola.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×