Körfubolti

Karlalandsliðið spilar ekki heimaleikina sína í Höllinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson sést hér á ferðinni á móti Dönum í Höllinni í fyrra.
Jón Arnór Stefánsson sést hér á ferðinni á móti Dönum í Höllinni í fyrra. Mynd/Anton

A-landslið karla í körfubolta mun ekki spila heimaleiki sína í Evrópukeppninni í Laugardalshöllinni í haust heldur í Smáranum í Kópavogi. A-landslið kvenna leikur sína leiki á Ásvöllum og í Smáranum.

Laugardalshöllin verður ekki heimavöllur körfuboltalandsliðsins í haust eins og undanfarin í ár. Íslenska karlalandsliðið spilaði heimaleiki sína í Höllinni 2007 og 2008 en 3 af 4 heimaleikjunum liðsins í Evrópukeppninni frá 2004 til 2006 fóru síðan fram í Keflavík.

Karlalandsliðið hefur ekki spilað landsleik í Smáranum síðan á Smáþjóðaleikunum 1997. Íslenska landsliðið endaði þá í þriðja sæti eftir að hafa unnið 3 af 4 leikjum sínum. Þetta verða aftur á móti fyrstu landsleikirnir á nýja parketinu í Smáranum en nýtt gólf var sett á salinn síðasta sumar.

Kvennaliðið spilar tvo fyrstu heimaleiki sína á Ásvöllum í Hafnarfirði þar sem liðið hefur spilað sína leiki tvö síðustu ár. Lokaleikurinn fer síðan fram í Smáranum þar sem verður tvíhöfði hjá báðum landsliðum.

Evrópuleikir íslensku landsliðanna á heimavelli í haust:

19. ágúst Kvennaliðið mætir Hollandi á Ásvöllum

22. ágúst Karlaliðið mætir Hollandi í Smáranum

26. ágúst Kvennaliðið mætir Írlandi á Ásvöllum

29. ágúst Karlaliðið mætir Austurríki í Smáranum

29. ágúst Kvennaliðið mætir Svartfjallandi í Smáranum








Fleiri fréttir

Sjá meira


×