Fótbolti

Arsenal vann - Jafntefli í öðrum leikjum

Elvar Geir Magnússon skrifar
Úr leik Manchester United og Inter.
Úr leik Manchester United og Inter.

Fjórir leikir voru í Meistaradeild Evrópu í kvöld en það voru fyrri viðureignir liðanna í sextán liða úrslitum keppninnar. Arsenal vann Roma 1-0 á heimavelli sínum en aðrir leikir enduðu með jafntefli.

Inter - Man Utd 0-0

Ryan Giggs fékk sannkallað dauðafæri á 26. mínútu eftir hræðileg varnarmistök. Hann slapp í gegn en fór í þrönga stöðu og Julio Cesar náði að verja skot hans í hornspyrnu. Staðan markalaus í hálfleik en United var mun betra liðið í fyrri hálfleiknum.

Liðsmenn Inter komu ákveðnari til leiks í seinni hálfleik og voru mjög hættulegir í byrjun hálfleiksins. Síðan jafnaðist leikurinn út en hvorugu liðinu tókst að skora. Þrátt fyrir það var leikurinn opinn og alls ekki leiðinlegur áhorfs.

Arsenal - Roma 1-0

1-0 Robin van Persie (Víti 37.)

Philippe Mexes braut á Van Persie á 37. mínútu og réttilega dæmd vítaspyrna. Van Persie fór sjálfur á punktinn og kom Arsenal yfir. Arsenal var talsvert betra liðið í leiknum en ákveðin vonbrigði fyrir liðið að hafa ekki náð fleiri mörkum í heimaleiknum.

Lyon - Barcelona 1-1

1-0 Juninho (7.)

1-1 Thierry Henry (67.)

*Eiður Smári var ónotaður varamaður í liði Barcelona.

Lyon komst yfir með stórglæsilegu marki frá Juninho úr aukaspyrnu. Hann sá að Victor Valdes var illa staðsettur og nýtti sér það. Henry jafnaði verðskuldað fyrir Börsunga með skalla í kjölfarið á hornspyrnu á 67. mínútu. Úrslitin 1-1.

Atletico Madrid - Porto 2-2

1-0 Maxi Rodriguez (3.)

1-1 Lisandro Lopez (22.)

2-1 Diego Forlan (45.)

2-2 Lisandro Lopez (72.)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×