Skoðun

Félagshyggjustjórn - skýrt val kjósenda

Skúli Helgason skrifar
Það hefur verið lenska í íslenskum stjórnmálum að stjórnmálaflokkarnir gangi óbundnir til kosninga. Það er réttlætt með því að flokkarnir vilji halda öllum möguleikum opnum á stjórnarsamstarfi og vilji ekki veikja samningsstöðu sína fyrirfram með því að útiloka tiltekna kosti. Nýr formaður Framsóknarflokksins hefur þegar tilkynnt opinberlega að hann muni fylgja þessari gömlu aðferð, að vera opinn í báða enda. Þeir sem kjósa Framsóknarflokkinn vita því ekki hvort þeir eru að greiða atkvæði með hægri stjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins eða félagshyggjustjórn með Samfylkingunni og VG.

Þingkosningar eru eina raunverulega tækið samkvæmt stjórnskipan lýðveldisins sem almenningur hefur til að hafa áhrif á landsstjórnina. Það tæki nær hins vegar bara hálfa leið, ef flokkarnir gefa ekki skýr skilaboð fyrir kosningar um það með hverjum þeir kjósi að starfa í ríkisstjórn. Óbundna leiðin grefur því undan lýðræðinu og felur í sér ákveðna lítilsvirðingu gagnvart almenningi. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að Samfylkingin eigi nú að brjóta í blað og lýsa því yfir skýrt og skorinort að við viljum mynda félagshyggjustjórn að loknum kosningum. Stjórnarsamstarfið við VG gengur mjög vel, þar er mikil eindrægni og vilji til að koma mikilvægum aðgerðum í verk sem lúta að velferð heimila og bættu rekstrarumhverfi fyrirtækja.

Á þeim fáu vikum sem stjórnin hefur starfað hefur hún þegar afgreitt 30 mál sem nú eru í meðförum Alþingis og bíða þar afgreiðslu. Ég leyfi mér að halda því fram að samstarfið fram til þessa hafi farið fram úr björtustu vonum.

Núverandi ríkisstjórn var mynduð á grundvelli mestu lýðræðisvakningar í landinu í áratugi. Virkt lýðræði hefur alla tíð verið rauður þráður í stefnu Samfylkingarinnar og ég tel að skýr yfirlýsing um stjórnarsamstarf sé virðingarvottur við kjósendur og gefi þeim skýrt val um félagshyggjustjórn sem hefji hér endurreisn samfélagsins á nýjum gildum jafnaðar, réttlætis og samábyrgðar.

Höfundur er frambjóðandi í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×