Þetta kemur fram í blaðinu Evening Standard í dag. Fernandes er fjárfestir frá Malasíu og á meðal annars flugfélagið Air Asia. Hann hefur þar að auki nýlega fest kaup á Lotus kappakstursliðinu og ætlar með það í Formúlu 1 keppnina á næsta keppnistímabili.
Aðspurður um kaupin á West Ham segir Fernandes að hann muni ekki kaupa hlut í liðinu í náinni framtíð. „Ég á fullt í fangi með að koma Formúlu 1 liðinu á koppinn svo að ég kaupi ekki í West Ham," segir Fernandes í samtali við blaðið.
Fernandes er mikill stuðningsmaður West Ham og hann hefur áhyggjur af framtíð liðsins. Segir hann að West Ham eigi skilið öfluga eigendur eftir að hafa verið illa stjórnað af fyrri eigendum sem skildu við liðið í miklum skuldum.