Fótbolti

Beckham varar við framherjum Inter

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Beckham í leik með AC Milan.
David Beckham í leik með AC Milan. Nordic Photos / AFP

David Beckham segir að Manchester United verði að varast stórhættulega sóknarmenn Inter er liðin mætast í Meistaradeild Evrópu í kvöld.

Beckham þekkir vel til liðs Inter þar sem hann er nú í láni hjá AC Milan frá bandaríska liðinu LA Galaxy.

Talið er víst að þeir Adriano og Zlatan Ibrahimovic muni spila saman í fremstu víglínu hjá Inter en Nemanja Vidic, varnarmaður United, verður ekki með sínum mönnum í kvöld.

„Inter er með frábæra leikmenn í sínu liði en þessir tveir framherjar eru þeir sem geta valdið sem mestum usla. En United er líka með góða varnarmenn og það má ekki heldur gleyma því að Inter þarf einnig að hafa áhyggjur af sóknarmönnum United."

David Beckham lék lengi með United og vann þrennuna frægu með liðinu árið 1999. United á nú enn möguleika á að vinna fjóra titla og vonar Beckham að liðið vinni þá alla.

„Það væri frábært ef þeim tækist það. Það var mikið afrek að vinna þrennuna árið 1999 og það er frábær árangur hjá þeim að eiga enn möguleika á fjórum titlum nú í ár."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×