Fótbolti

Guardiola vill að Fletcher spili í úrslitaleiknum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Darren Fletcher fær að líta rauða spjaldið í leiknum gegn Arsenal.
Darren Fletcher fær að líta rauða spjaldið í leiknum gegn Arsenal. Nordic Photos / Getty Images
Pep Guardiola vill að Darren Fletcher fái að spila með Manchester United gegn Barcelona í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu síðar í mánuðinum. Guardiola er stjóri Barcelona.

Fletcher fékk að líta rauða spjaldið í síðari undanúrslitaviðureign United gegn Arsenal fyrr í vikunni og þótti það mjög harður dómur. United áfrýjaði spjaldinu en ólíklegt þykir að rauða spjaldið verði dregið til baka.

Degi síðar lék Barcelona í sinni undanúrslitaviðureign gegn Chelsea og þar fékk Eric Abidal einnig að líta rauða spjaldið. Dani Alves var með gult spjald á bakinu fyrir leikinn og þar sem hann fékk áminningu í leiknum verður hann einnig í banni í úrslitaleiknum.

Barcelona hefur áfrýjað báðum þessum spjöldum til Knattspyrnusambands Evrópu.

„Það verða vonbrigði ef rauða spjaldið verður ekki dregið til baka," sagði Guardiola. „Fletcher náði að koma við boltann. Eric Abidal braut heldur ekki af sér þannig að þeir ættu báðir að fá að spila í úrslitaleiknum."

„Ég vil að þeir taki allir þátt - Fletcher, Abidal og Dani Alves. Við skulum sjá hvort við getum ekki komist að einhverju samkomulagi við Manchester United."

Það þykir þó afskaplega ólíklegt að UEFA samþykki slíkt samkomulag á milli félaganna tveggja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×