Jólajóla Guðmundur Steingrímsson skrifar 27. desember 2008 07:00 Verslunarmanneskja í vinsælli búð á Laugaveginum hafði á orði við mig á mánudaginn að jólin núna væru þau afslöppuðustu sem hún hefði upplifað. Hún meinti ekki að það væri lítið að gera í búðinni. Það var nóg að gera, jafnvel meira en áður. En fólkið var afslappaðra, sagði hún. Minni æsingur. JÁ, sagði ég á móti. Er það virkilega. Mér fannst þetta athyglisvert. Þegar ég gekk út í skammdegið gat ég ekki annað en tekið undir þetta í huganum hvað mig sjálfan varðaði. Þessi jól voru afslappaðri en önnur jól á síðari tímum sem ég man eftir. Það er helst að veðrið hafi verið með æsing. Eilífur stormbeljandi, sérstaklega á ofanverðum Laugaveginum, en að öðru leyti var allt að mestu æsingalaust. ÞANNIG eiga jólin auðvitað að vera. Hátíð friðar, eins og þar stendur. Þau hafa hins vegar ekki alltaf verið svoleiðis. Einhvern veginn eru minningar um síðustu ár hvað varðar aðdraganda jólanna, jólaundirbúning og jólagjafainnkaup, á köflum sveipaðar brjálæðis- og ofsatilfinningu. Í góðærinu er eins og flestir hafi meira og minna alltaf verið á þönum með tryllingsglampa í augum undir drynjandi jólabjöllum út um allar trissur - inn í Smáralind, Kringlu, til Kaupmannahafnar, Glasgow eða Minneapolis - í leit að gjöfum og jólafötum á milli þess sem allir þurftu að baka smákökur, hreinsa heimilið, fara í jólaglögg, jólahlaðborð, skreyta og vera hressir. ÞETTA hefur tónast aðeins niður. Ef það verða viðvarandi áhrif hrunsins í október, að Íslendingar almennt verði afslappaðri á jólunum, er það auðvitað mjög gott mál. Jólin eru ekki vöruskipti. Jólin eru pása. Tími hugleiðingar og samveru. Og þó svo gjafirnar séu ómissandi er hugsunin ekki endilega sú að heimilishaldið eigi að vera skuldum hlaðið fram í ágúst út af þeim. HVAÐ æsing varðar vona ég þó að eitt muni aldrei breytast og það er hin einlæga og hákómíska spenna barnanna. Fjögurra ára skjáta sá viðtal við Stekkjastaur í sjónvarpinu. Hann sagði að öll börn ættu að vera þæg því þá fengju þau gott í skóinn. Strax eftir viðtalið kom skottan skoppandi á öðrum fæti með galopin biðjandi augu og krafðist þess við föður sinn að hún fengi að taka til í herberginu sínu þá þegar. Undir eins. ÞAÐ var ómótstæðilegur æsingur. Ég sagði já. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Steingrímsson Mest lesið Barnaskapur Bjarna Ben; Fjölmargar þjóðir með meiri kaupmátt en við! Ole Anton Bieltvedt Skoðun Sigurður Ingi og óverðtryggingin Hjalti Þórisson Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Jæja, ræðum þá þetta dásamlega Evrópusamband Haraldur Ólafsson Skoðun Varnarveggur gegn vonbrigðum Sanna Magdalena Mörtudóttir Skoðun Flokkur fólksins vill efla byggð um land allt! Lilja Rafney Magnúsdóttir Skoðun Hægri menn vega að heilbrigðiskerfinu Stefán Ólafsson Skoðun Kvikmyndagerð á Íslandi: Næstu skref Lilja Dögg Alfreðsdóttir Skoðun Hvað kostar vímuefnavandinn? Lilja Sif Þorsteinsdóttir Skoðun Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun
Verslunarmanneskja í vinsælli búð á Laugaveginum hafði á orði við mig á mánudaginn að jólin núna væru þau afslöppuðustu sem hún hefði upplifað. Hún meinti ekki að það væri lítið að gera í búðinni. Það var nóg að gera, jafnvel meira en áður. En fólkið var afslappaðra, sagði hún. Minni æsingur. JÁ, sagði ég á móti. Er það virkilega. Mér fannst þetta athyglisvert. Þegar ég gekk út í skammdegið gat ég ekki annað en tekið undir þetta í huganum hvað mig sjálfan varðaði. Þessi jól voru afslappaðri en önnur jól á síðari tímum sem ég man eftir. Það er helst að veðrið hafi verið með æsing. Eilífur stormbeljandi, sérstaklega á ofanverðum Laugaveginum, en að öðru leyti var allt að mestu æsingalaust. ÞANNIG eiga jólin auðvitað að vera. Hátíð friðar, eins og þar stendur. Þau hafa hins vegar ekki alltaf verið svoleiðis. Einhvern veginn eru minningar um síðustu ár hvað varðar aðdraganda jólanna, jólaundirbúning og jólagjafainnkaup, á köflum sveipaðar brjálæðis- og ofsatilfinningu. Í góðærinu er eins og flestir hafi meira og minna alltaf verið á þönum með tryllingsglampa í augum undir drynjandi jólabjöllum út um allar trissur - inn í Smáralind, Kringlu, til Kaupmannahafnar, Glasgow eða Minneapolis - í leit að gjöfum og jólafötum á milli þess sem allir þurftu að baka smákökur, hreinsa heimilið, fara í jólaglögg, jólahlaðborð, skreyta og vera hressir. ÞETTA hefur tónast aðeins niður. Ef það verða viðvarandi áhrif hrunsins í október, að Íslendingar almennt verði afslappaðri á jólunum, er það auðvitað mjög gott mál. Jólin eru ekki vöruskipti. Jólin eru pása. Tími hugleiðingar og samveru. Og þó svo gjafirnar séu ómissandi er hugsunin ekki endilega sú að heimilishaldið eigi að vera skuldum hlaðið fram í ágúst út af þeim. HVAÐ æsing varðar vona ég þó að eitt muni aldrei breytast og það er hin einlæga og hákómíska spenna barnanna. Fjögurra ára skjáta sá viðtal við Stekkjastaur í sjónvarpinu. Hann sagði að öll börn ættu að vera þæg því þá fengju þau gott í skóinn. Strax eftir viðtalið kom skottan skoppandi á öðrum fæti með galopin biðjandi augu og krafðist þess við föður sinn að hún fengi að taka til í herberginu sínu þá þegar. Undir eins. ÞAÐ var ómótstæðilegur æsingur. Ég sagði já.