Körfubolti

Riley hættur og Brown til Charlotte

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pat Riley er hættur sem þjálfari Miami Heat.
Pat Riley er hættur sem þjálfari Miami Heat. Nordic Photos / Getty Images

Það er mikið að gerast í þjálfaramálunum NBA-deildarinnar þessa dagana. Pat Riley er hættur hjá Miami og Larry Brown hefur tekið við Charlotte.

Riley gerði Miami að meisturum fyrir tveimur árum en liðinu gekk skelfilega á þessari leiktíð og vann aðeins fimmtán leiki af 82. Aðstoðarmaður hans til lengri tíma, Erik Spoelstra, tekur við starfinu en hann er einungis 37 ára gamall. Hann verður þar með yngsti aðalþjálfarinn í deildinni.

Riley gerði þar að auki LA Lakers fjórum sinnum að meisturum og stýrði einnig New York Knicks í úrslitin.

Hann sagði að hann ætlaði ekki að snúa sér aftur að þjálfun en mun áfram koma að körfuboltanum í öðrum störfum.

Þá hefur fréttastofa AP eftir sínum heimildum að Michael Jordan hafi ráðið Larry Brown til að taka við þjálfun liðsins af Sam Vincent sem var rekinn um helgina. Búist er við því að þetta verði tilkynnt á morgun.

Þetta er níunda liðið sem Brown þjálfar á ferlinum og það fyrsta síðan hann hætti hjá New York eftir skelfilegt gengi þar fyrir tveimur árum síðan.

Jordan er einn eiganda Charlotte-liðsins en þar áður átti hann hlut í Washington Wizards. Honum hefur ekki gengið nógu vel á þessum vettvangi en freistar þess nú að rétta skútuna við.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×