Fótbolti

Dyrnar opnar fyrir Raul

Elvar Geir Magnússon skrifar
Raul fagnar marki.
Raul fagnar marki.

Vicente del Bosque, landsliðsþjálfari Spánar, segir að það komi svo sannarlega til greina að velja gulldrenginn Raul hjá Real Madrid í hóp sinn. Raul hefur ekki leikið fyrir landsliðið síðan hann var settur undir kuldann í stjórnartíð Luis Aragones 2006.

„Raul er í byrjunarliðinu hjá sínu liði, er að leika vel og á því góða möguleika á að vera kallaður upp í landsliðið. Ef ég tel rétt að velja hann þá mun ég gera það," sagði Del Bosque sem þjálfaði Raul þegar hann var við stjórnvölinn hjá Real Madrid milli 1999 og 2003.

„Landsliðsdyrunum var aldrei lokað á Raul. Þá er hann sá leikmaður sem skorað hefur flest mörk fyrir landsliðið," sagði Del Bosque. Raul hefur skorað 44 mörk í 102 landsleikjum en hefur ekki leikið fyrir landsliðið síðan 6. september 2006 þegar Spánn tapaði fyrir Norður-Írlandi í undankeppni EM.

Raul hefur skorað sex mörk fyrir Real Madrid á þessu tímabili en Spánn er nú á toppi síns riðils í undankeppni HM. Spánverjar urðu Evrópumeistarar síðasta sumar eins og flestir vita.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×